Teikn eru á lofti um að leigumarkaður sé orðinn mettaður og leigusalar geti ekki haldið áfram að hækka verð. Þetta sést meðal annars í því að eftirspurn eftir leiguhúsnæði hefur minnkað og hlutfall einstaklinga sem búa í leiguhúsnæði hefur farið lækkandi frá árinu 2012. Þetta kom fram í kynningu Önnu Hrefnu Ingimundardóttur, hagfræðings í greiningardeild Arion banka, í vikunni.

Frá árinu 2011 hefur verð á leigumarkaði hækkað um tæp 40% að meðaltali. Það er talsvert meiri hækkun en á almennu verðlagi, sem hefur hækkað um 16,5% á sama tíma, og umfram hækkun launa sem hefur verið tæp 29% á tímabilinu.

„Það er rétt að það hafa verið rosalega miklar verðhækkanir á leigumarkaði undanfarin ár, og helst yngsti aldurshópurinn og tekjulægsti hópurinn sem hafa þurft að sækja á leigumarkað. Í fyrra fórum við að sjá ákveðinn viðsnúning og þessir tveir hópar eru ekki að fara út á leigumarkaðinn í eins miklum mæli og var,“ segir Anna Hrefna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .