*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 21. september 2020 16:57

Verð matarkörfunnar tekið stökk

Um nítján prósent af matarkörfu Íslendinga er varið í kjöt. Kartöflur hafa hækkað um nær fjórðung á árinu en matarkarfan um 6,3%.

Ritstjórn
Verð á matarkörfu Íslendinga hefur hækkað um ríflega sex prósent á þessu ári en hún hækkaði 1,1% á síðasta ári.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Matarkarfan hefur hækkað um 6,3% það sem af er ári, eins og hún mælist í vísitölu neysluverðs. Frá apríl til maí hækkaði hún um eða yfir eitt prósent milli mánaða. Frá þessu er greint á vef Landsbankans.

Árið 2019 hækkaði matarkarfan um 1,1% og hefur því hækkað talsvert hraðar það sem af er ári. Íslenska krónan var nokkuð stöðug á síðasta ári en hefur veikst um allt að fimmtung á þessu ári. Talið er að sú þróun skýri að miklu leiti breytinguna.

Hækkun á mat og drykkjarvörum í ár er töluvert meiri en á almennu verðlagi en vísitala neysluverðs hefur hækkað um 2,5% á þessu ári. Fram kemur í greiningu Landsbankans að mun meiri velta er með matvæli en aðrar vörur. Því er ekki óeðlilegt að þegar krónan veikist komi breytt verðlag fyrr fram og með meiri þunga í verði á matvörum en hjá öðrum vörum.

Um 19% af matarkörfu landsmanna er varið í kjöt. 18% fara í mjólk, osta og egg, um 15% fara í brauð og kornvörur og um níu prósent í sykur, súkkulaði og sælgæti.

Kartöflur hafa hækkað um 23% það sem af er ári. Smjör hefur hækkað um 12,4% og epli um nær þriðjung.

Íslensk heimili verja um 15% af útgjöldum sínum í mat og drykkjarvörur. Í þeirri tölu er matur sem neytt er utan veggja heimila undanskilinn, um fjögur prósent af útgjöldum heimilanna voru á veitinga- og kaffihúsum og 0,8% varið í mötuneytum.

Hér að neðan má sjá þær matvörur sem hafa hækkað hvað mest og þær sem hafa hækkað hvað minnst, það sem af er ári. Að auki má sjá verðþróun á matvörum sem eru bæði innfluttar og innlendar. Myndirnar eru fengnar úr greiningu Landsbankans.