Verð á metaneldsneyti hækkaði síðasta föstudag um 18 krónur á hvern rúmmetra. Einn rúmmetri kostar því nú 149 krónur.

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Eggerti Þór Kristóferssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs N1, að ástæða hækkunarinnar sé nýr samningur á milli N1 og Sorpu. Sorpa framleiðir metanið en samkvæmt Eggerti hækkaði söluverðið til N1 töluvert í nýjum samningi. Björn H. Halldórsson framkvæmdastjóri Metan hf. og Sorpu bs. segir að verðhækkunina megi rekja til aukinnar eftirspurnar eftir metani sem feli það í sér að fyrirtækið þurfi að auka fjárfestingu í framleiðslu.

Í blaðinu er einnig rætt við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra FÍB, sem segir þetta aðra verðhækkunina á metani á stuttum tíma. Hann segir verðið einnig hafa hækkað nú í vor og bendir á að hækkunin á síðastliðnum tveimur árum nemi tugum prósenta.