Verð hlutabréfa í Netflix tóku dýfu á eftirmarkaði fyrst eftir að ársfjórðungsuppgjör fyrirtækisins var birt eftir lokun markaða í Bandaríkjunum í gær, en hækkaði svo á ný og fór upp fyrir lokaverð á markaði.

Virðist sem markaðurinn hafi þar brugðist við eftir að kom í ljós að vöxtur í fjölda nýrra áskrifanda var minni en væntingar höfðu verið um, eða 4,93 milljónir í stað 5,2 milljónir.

Höfðu þeir bjartsýnustu jafnvel búist við að áskrifandafjöldinn færi yfir 100 milljón markið, en í Bandaríkjunum einum eru þeir í kringum 50 milljónir. Hins vegar jókst hagnaður fyrirtækisins um 41% sem er meira en sú 38% hagnaðaraukning sem væntingar höfðu verið um.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hækkaði hlutabréfaverð fyrirtækisins í gær, en það fór upp um 3,03% og endaði viðskiptadaginn í 147,25 dölum á hlut.

Fyrst eftir lokun markaða lækkaði það svo niður í 141,99 dali á hlut, en nú er verslað með bréfin á eftirmarkaði fyrir um 149,35 dali á hlut.