Veitur lækka verð á rafmagnsdreifingu í dag, 1. nóvember, um 7,5%. Þetta er í annað skipti á innan við ári sem verð fyrir rafmagnsdreifingu lækkar en síðast var það 1. janúar síðastliðinn. Þá lækkaði það um 5,8% að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Rafveita Veitna þjónar svæðinu frá Akranesi í vestri suður í miðjan Garðabæ. Á þessu svæði býr meira en helmingur þjóðarinnar og þar er mikill atvinnurekstur. Helstu mannvirki dreifikerfisins eru aðveitustöðvar, spennistöðvar og háspennustrengir á milli þeirra, tengikassar í götum og heimtaugar.

Samanlögð lengd allra strengjanna er um 3.500 kílómetrar, sem svarar gróflega til vegalengdarinnar frá Reykjavík til Moskvu í Rússlandi. Dreifingarkostnaðurinn, sem oft er um helmingur rafmagnsreiknings heimila, skiptist í fast gjald á dag og svo verð á hverja notaða kílóvattstund. Báðir þessir þættir lækka um 7,5% en aðrir hlutar gjaldskrárinnar standa í stað.

Auk rafmagnsdreifingarinnar innheimta Veitur flutningsgjald fyrir Landsnet og jöfnunargjald og virðisaukaskatt fyrir ríkissjóð. Þessir þættir rafmagnsreikningsins breytast ekki nú um mánaðamótin. Sala rafmagns er á samkeppnismarkaði og fólk og fyrirtæki geta valið á milli raforkusala.