*

mánudagur, 26. október 2020
Innlent 9. júní 2016 11:15

Verð á sérbýli fer hækkandi

Ný skýrsla sem Reykjavík Economics vann fyrir Íslandsbanka segir að markaður fyrir sérbýli sé að opnast.

Ritstjórn
Fasteignaverð heldur áfram að hækka.
Haraldur Jónasson

Íbúðaverð hækkar og hækkar. Í apríl hafði verð á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 6,8% að raungildi á síðustu 12 mánuðum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Reykjavík Economics vann fyrir Íslandsbanka.

Eins og margir vita tók fasteignamarkaðurinn dýfu eftir hrun. Fasteignaverð lækkaði töluvert milli áranna 2008 og 2010 en eftir það tók það að hækka að nýju. Í skýrslunni kemur fram að frá apríl 2010 til apríl 2016 hefur raunverð íbúðarhúsnæðis hækkað um 28,5%.

Í skýrslu Reykjavík Economics er fjallað sérstaklega um sérbýli en verð á slíku húsnæði hefur ekki hækkað jafn mikið og verð á íbúðum í fjölbýli. Með sérbýli er til dæmis átt við einbýlishús og raðhús. Ein af niðurstöðum skýrslunnar er að markaður með sérbýli sé að opnast og að í raun hafi verð á slíku húsnæði fyrst farið að hækka að ráði í fyrra. Þannig hækkaði verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 2,3% að raungildi á árinu 2015 samanborið við 6,7% hækkun heildarhækkun á íbúðarhúsnæði á sama tíma.

Aftur á móti kemur fram að velta með sérbýli fari vaxandi og verð hækkandi. Aukning í veltu kaupsamninga með sérbýli jókst um 23,4% í fyrra. Veltan nam 114,4 milljörðum króna. Athygli vekur að tæplega 70% sérbýlis í Reykjavík eru í eigu fólks sem er 50 ára eða eldra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Íslandsbanki Fasteignir