*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 14. júní 2020 15:04

Verða að anda með nefinu

Formaður bankaráðs Seðlabankans telur óraunhæft að lífeyrissjóðirnir geti miðað við 3,5% ávöxtun til lengri tíma.

Magdalena A. Torfadóttir
Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild og formaður bankaráðs Seðlabankans.
Eyþór Árnason

Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild og formaður bankaráðs Seðlabankans, segir að anda eigi rólega þótt sveiflur séu á eignamörkuðum. „Lífeyrissjóðirnir verða að anda með nefinu og það er mikilvægt að menn hlaupi ekki upp til handa og fóta þó það séu einhverjar sveiflur á eignamörkuðum,“ segir Gylfi og bætir við að benda megi sérstaklega á það að erlendir hlutabréfamarkaðir hafi lækkað minna heldur en hann hafi búist við.

„Það er því spurning hvort þeir eiga eftir að lækka eitthvað meira en hver þróunin verður veit enginn. Það er töluverð áhætta að fjárfesta í útlöndum þannig að það er enginn augljós kostur.“

Óraunhæft að ná 3,5% ávöxtun til lengri tíma

Lífeyrissjóðirnir nota núvirðingarprósentuna 3,5% til að núvirða eignir og skuldir í tryggingafræðilegum uppgjörum. Ávöxtun lífeyrissjóðanna ræðst af ávöxtun eigna svo sem skuldabréfa, hlutabréfa og innlána. Sjóðirnir kaupa skuldabréf á markaði þar sem ávöxtunarkrafa ræðst af framboði og eftirspurn.

„Vextirnir sem við þurfum að skoða eru óverðtryggðir skammtímavextir en lífeyrissjóðirnir fjárfesta ekki mikið á slíkum vöxtum en fjárfesta mikið á langtíma verðtryggðum vöxtum og einnig mikið á óverðtryggðum langtíma vöxtum. En vextir eru náttúrulega mjög lágir um þessar mundir og vextir á ríkisbréfum með verðtryggingu eru nú um það bil núll, það er að segja raunvextir og það er grunnurinn sem byggir á einhverju áhættuálagi. Þá er ljóst að ekki er hægt að ná 3,5% ávöxtun af skuldabréfahlutanum einum og sér,“ segir Gylfi og bætir við að til þess að sambland af hlutabréfum og skuldabréfum nái 3,5% ávöxtun þá þurfa hlutabréfin að skila þokkalegri ávöxtun en það verði alltaf erfiðara eftir því sem grunnvaxtastig er lægra.

Hann segir jafnframt að lífeyrissjóðirnir verði að horfast í augu við þessa tíma og reyna að vinna úr þeim eftir bestu getu þar sem lífeyrissjóðirnir geti ekki breytt vaxtastiginu. „Það er í fyrsta lagi alveg ljóst að þeir þurfa að fjárfesta meira erlendis á næstu árum vegna þess að fjárfestingakostir innanlands eru ekki nægir. Þar með er ekki sagt að þeir muni einungis fjárfesta í erlendum bréfum þannig að þeir verða að fjárfesta í einhverjum skynsamlegum hlutum innanlands og utan.“

Spurður hvernig hann telji að fjárfestingastefna lífeyrissjóðanna muni virka á þessum tímum segir hann að tíminn einn geti leitt það í ljós. „Það eru ekki komin nein uppgjör sem ég hef séð varðandi það hvernig lífeyrissjóðir hafi farið í gegnum þessa dýfu en til þegar til lengdar lætur þá hefur stefna þeirra skilað þokkalegri ávöxtun og það er hægt að gera ráð fyrir því að til lengri tíma sé fjárfestingastefna þeirra skynsamleg.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér