Fá íslensk fyrirtæki njóta jafn mikillar velgengni og Hagar gera um þessar mundir. Félagið skilaði 939 milljóna króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi og 837 milljóna króna hagnaði á sama tíma í fyrra, en heildarhagnaður seinasta árs var 3.953 milljónir.

Frá því að félagið var skráð í kauphöll í lok árs 2011 hefur verðmæti hlutabréfa í því rúmlega þrefaldast og á seinustu tólf mánuðum hefur virði þeirra aukist um meira en fjórðung. Arðsemi félagsins helst í hendur við þá staðreynd að velta í dagvöruverslun hefur aldrei verið meiri og er meira að segja 7% meiri en fyrir hrun.

Finnur Árnason hefur verið forstjóri Haga síðan árið 2005, en hann hefur verið viðriðinn matvörumarkað allt frá árinu 1989, sama ár og Bónus var stofnað. Það ár var hann sölu- og markaðsstjóri Sláturfélags Suðurlands, en eftir það var hann framkvæmdastjóri Nýkaups árin 1998-2000 og Hagkaups árin 2000-2005.

Aðspurður hver sé lykillinn að velgengni á matvörumarkaði segir Finnur að margt komi þar inn í. „Við erum að reka tvö fyrirtæki sem voru stofnuð af frumkvöðlum sem höfðu verslunarhugsjónir í öndvegi. Það er annars vegar Pálmi í Hagkaup og hins vegar Jóhannes í Bónus. Það er hægt að byrja að segja að grunnurinn er góður þegar farið er af stað. Síðan er mjög mikið af afburðafólki sem hefur unnið lengi hjá félaginu og er með mikla reynslu og kann til verka,“ segir Finnur.

Þá segir Finnur að íhaldssöm íslensk stjórnmál séu helsta hindrunin á vegferð heimila í átt að aukinni hagsæld. Ein birtingarmyndin sé óhagkvæmt og flókið landbúnaðarkerfi sem fámennur hópur manna hafi hagsmuni af og íslenskir stjórnmálamenn standi vörð um. Áfengi í matvörubúðir og frelsi til innflutnings sé orðið tímabært.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .