Stóru vátryggingafélögin þrjú - Vátryggingafélag Íslands (VÍS), Sjóvá-Almennar tryggingar og Tryggingamiðstöð Íslands (TM) - verða að halda áfram að ná fram hagkvæmni í tryggingarekstri til að koma til móts við óvissu á fjármálamörkuðum og vaxandi líkur á aukinni tjónatíðni í hagkefinu. Ekki er ósennilegt að það verði gert með verðhækkunum á tryggingum, en tryggingar hækkuðu um tæplega 5% í verði á síðasta ári.

Óvissa með vaxtastigið

Að sögn Snorra Jakobssonar, ráðgjafa hjá Capacent, velta rekstrarhorfurnar á vátryggingamarkaði á því hvort félögunum takist að styrkja grunnreksturinn á næstu árum.

„Rekstrarhorfurnar velta á því hvort tryggingafélögunum takist að halda áfram að ná niður samsettu hlutföllunum niður fyrir 100%. Sögulega séð hafa íslensk tryggingafélög keyrt á samsettu hlutfalli yfir 100% – einkum fyrir hrun – og hefur rekstur þeirra verið að talsverðu leyti fólginn í ávöxtun fjármuna, en að meðaltali var hlutdeild fjármálareksturs um 60% af hagnaði tryggingafélaganna fyrir skatt milli 2011 og 2015 borið saman við um 30% á Norðurlöndunum.

Helsta ástæðan fyrir því er hár rekstrarkostnaður og hátt vaxtastig í landinu. Í hávaxtaumhverfi geta tryggingafélögin tekið iðgjöldin og fjárfest þeim á háum vöxtum og staðið þannig undir vátryggingaskuldinni. Í nágrannalöndunum eru vextir lægri og samsettu hlutföllin mun hagstæðari. Við vitum ekki hversu lengi við verðum í þessu hávaxtaumhverfi. Þar að auki ríkir ávallt óvissa á verðbréfamörkuðum,“ segir Snorri, en einnig er talsvert flökt á innlendum eignaflokkum.

„Það er því mikilvægt að undirstöðurnar séu sterkar. Þú rekur ekki tryggingafélag á fjárfestingartekjum.“

Hagspár gera ráð fyrir áframhaldandi hagvexti næstu fimm árin og eru líkur á því að tjónatíðni og tjónakostnaður muni halda áfram að aukast. Tryggingafélög eiga þar að auki aldrei á vísan að róa með fjárfestingatekjur, og munu félögin því þurfa að finna leiðir til að bæta hagkvæmni í tryggingarekstri. Ef það verður ekki gert með kostnaðarhagræðingu verða tryggingafélögin að öllum líkindum að hækka verð á tryggingum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .