Það heyrist gjarnan í kreppu að það fyrsta sem megi skera niður séu Sinfónían og utanríkisþjónustan. Í stóra samhenginu er utanríkisþjónustan mjög lítil í ríkisreikningnum en hún hlýtur að skipta miklu máli í þessum alþjóðavædda heimi.

„Ef þú skoðar þróun fjárframlaga til utanríkisþjónustunnar þá hefur verið mjög mikil aukning í þróunarmálum. Annað, ef við berum okkur saman við 2007, þá eru framlög til bæði starfsemi ráðuneytisins og sendiráðanna lægri en þá var. Í vinnunni við umbætur á utanríkisþjónustunni og raktar eru í skýrslunni Utanríkisþjónustu til framtíðar – hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi reynum við að nýta það sem við höfum eins vel og við getum,“ segir Guðlaugur Þór.

„Það sem mér hefur fundist vanta er samstaða. Ef við horfum til landsliðanna okkar þá veit ég ekkert hvernig þessu fólki kemur saman utan vallar en á útivelli þá spila allir saman og allir virka sem bestu vinir með órofa samstöðu. Þegar íslensk fyrirtæki eru á útivelli, á þessum risastóru mörkuðum, þá eigum við að vinna saman. Mér hafa fundist menn vera of mikið hver í sínu horni. Þess vegna gengur þetta út á góða samvinnu þess sem má kalla hefðbundinnar utanríkisþjónustu eins og sendiráða, Íslandsstofu, hagsmunaaðila og fyrirtækja innan þeirra. Ef við ætlum að halda hér lífsskilyrðum eins og við viljum sjá þau verðum við að auka útflutningstekjur um milljarð á viku fram til 2030. Þetta er þá hlekkur sem verður að virka. Opinberir aðilar selja ekki nokkurn skapaðan hlut en þeir geta opnað dyr. En ef dyrnar opnast þá verða einhverjir að koma og ganga inn um þær,“ segir Guðlaugur Þór.

Hann bendir auk þess á að ef við ætlum að ná þessum markmiðum þá gerum við það ekki eingöngu með þessum hefðbundnu geirum sem treysta á náttúruauðlindir heldur verður það í hátækni og því sem er kallað fjórða iðnbyltingin. „Til að þjóðfélagið verði samkeppnishæft í framtíðinni verðum við að vinna saman. Nýsköpun er nauðsynleg í öllum atvinnugreinum. Vaxtarbroddarnir eru ekki síst í skapandi greinum, menningu og hátækni.“ Í vinnu stýrihóps utanríkisráðuneytisins, þar sem var farið í saumana á utanríkisþjónustunni á síðasta ári, var sett fram 151 tillaga að því sem betur mætti fara. „Vinnan var ekki bara hér innanhúss heldur fórum við til allra hagsmunaaðila í leit að tillögum. Við settum okkur skýr markmið svo að við gætum haldið vel utan um framkvæmdina. Það hefur skilað því að þegar er búið að hrinda 68 tillögum í framkvæmd og að öllum líkindum verða fjörutíu til viðbótar komnar til framkvæmda í sumarbyrjun.“

Eitt stærsta verkefnið hingað til

Margt bendir til að Haukur Hilmarsson hafi látið lífið í stríðsátökum í Sýrlandi fyrir skömmu. Hann er þá að líkindum fyrsti Íslendingurinn sem endar líf sitt í vopnuðum átökum í langan tíma. Guðlaugur Þór segir borgaraþjónustu utanríkisþjónustunnar sinna um 30.000 verkefnum árlega en leitin að Hauki sé eitt umfangsmesta verkefnið sem borgaraþjónustan hefur fengist við. „Þetta dapurlega mál hefur verið í algjörum forgangi hjá okkur og mjög gott fólk hefur starfað að því. Þetta er nýtt fyrir okkur, Norðurlandaþjóðirnar hafa meiri reynslu af þessu en ég efast um að nokkur þeirra hafi lagt jafn mikla vinnu í sambærileg mál og við höfum gert í þessu.“ Þrátt fyrir það er ekki komin niðurstaða í málið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .