*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 3. júlí 2019 17:05

Verða að skrá allar gjafir og aukastörf

Nýjar reglur um hagsmunaskrá æðstu embættismanna stjórnarráðsins munu banna störf fyrir hagsmunaverði innan 8 mánaða.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Æðstu embættismönnum í stjórnarráðinu verða skyldaðir til að skila hagsmunaskráningu við ráðningu, sem og tilkynna um gjafir og aukastörf, samkvæmt áformum til lagasetningar sem kynnt voru í samráðsgáttinni í dag. Lagafrumvarpið verður lagt fram á haustþingi.

Ná reglurnar einnig til maka og ólögráða barna viðkomandi æðstu starfsmanna stofnana ríkisins, sem og til þeirra sem sinna ýmis konar hagsmunavörslu fyrir einkaaðila gagnvart handhöfum ríkisvaldsins. Jafnframt verður starfsmönnum ráðuneyta ríkisins óheimilt að starfa fyrir hagsmunasamtök fyrr en í fyrsta lagi 8 mánuðum eftir að störfum fyrir ríkið lýkur.

Mun forsætisráðuneytið sinna eftirliti með að lögunum verði framfylgt og halda utan um hagsmunaskrár, sem og skrár um hagsmunaverði, gjafir og heimil aukastörf, auk þess að skila áliti um mál og veita undanþágur frá reglunum. Einnig mun verða fært að fela sjálfstæðum eftirlitsaðila hluta eftirlitshlutverksins, til að mynda Ríkisendurskoðun.

Kemur þetta fram í frumvarpi til breytinga á lögum um Stjórnarráð Íslands, undir fyrirsögninni Varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds, sem lagt hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda.

Er löggjöfin fyrirhugaða m.a. í samræmi við tilmæli GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, sem og starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Felast breytingarnar í sér bæði viðbætur og breytingar á VI. kafla laga um Stjórnarráð Íslands frá árinu 2011.