Gestur Pétursson, forstjóri Elkem, segir breyttar áherslur á alþjóðamörkuðum þegar kemur að orkuskiptum hafa valdið því að fyrirtækið hafi ákveðið að snúa að mestu leyti baki við framleiðslu á staðalvörum og færa sig þess í stað í framleiðslu á sérhæfðum hágæða stálafurðum. Gestur segir að breyttum áherslum fyrirtækisins fylgi mikil aukning í vöru­ þróun og nýsköpun en hann telur að með auknu framlagi ríkisins til svokallaðs endurgreiðslukerfi megi auðveldlega skapa um 2.000 ný störf í landinu á sviði rannsókna og þróunar.

Aukin endurgreiðsla gæti skapað um 2.000 ný störf

Öll þessi aukna áhersla í heiminum á umhverfisvæn orkuskipti hlýtur þá að fela í sér byltingu fyrir rekstur Elkem?

„Jú, það er óhætt að fullyrða það en fyrst og fremst er það ótrúlega gefandi og skemmtilegt fyrir okkur að fá að vera í þessu „auga stormsins“ hvað varðar orkuskiptin enda erum við með framleiðslu okkar ekki aðeins í beinum samskiptum við viðskiptavini okkar heldur einnig viðskiptavini viðskiptavina okkar og erum í vöruþróun með þeim. Hjá Elkem á heimsvísu eru tæplega 400 manns sem starfa eingöngu við rannsóknir og þróun og það er gaman að geta sagt frá því að á síðasta ári hefur átt sér stað mjög já­ kvæð breyting á umhverfi rannsókna og þróunar á Íslandi. Líkt og áður hafði verið gert á umfangsmeiri hátt í kvikmyndaiðnaðnum, var búið til svokallað endurgreiðslukerfi gagnvart þeim sem stuðla að því að skapa störf sem ekki hafa verið til í landinu áður.

Í kvikmyndaiðnaðnum hefur ávöxtunin af þessu átaki verið 1.300 ársverk í greininni sem ekki voru til áður en hér er um að ræða störf fyrir samfélagið og einstaklinga sem eru allt í senn arðbær og skapa fjölbreyttara atvinnulíf. Það hefur áður verið slíkt endurgreiðslukerfi þegar kemur að rannsóknum og þróun en þakið á þeim hefur alltaf verið mjög lágt á Íslandi. Í fyrra dró hins vegar til tíðinda þegar allir 63 þingmenn sam­ þykktu að hækka þakið úr 20 í 60 millj­ ónir en sú breyting leiddi m.a. til þess að til urðu þrjú ný störf á Grundartanga. Ég segi það alveg tæpitungulaust að ef að mönnum auðnast að ná sömu sátt um að auka enn frekar við endurgreiðsluna líkt og gert var í kvikmyndaiðnaðnum þá verði mjög auðveldlega til 2.000 ný störf á Íslandi við rannsóknir og þróun. Ein helsta ástæðan er sú að í dag er tiltölulega auðvelt að fá sprotafjármögnun en hins vegar töluvert erfiðara að fá vaxtafjármögnun. Með þessari breytingu myndu menn í raun virkja til muna alla nýsköpunar- og þróunarvinnu innan núverandi fyrirtækja sem myndi gera það að verkjum að vaxtafjármögnun yrði að miklum hluta óþörf.“

Verða að taka ábyrgð á umræðunni

Spurður hvort Gestur telji umræðu um kísilframleiðendur á Íslandi ósanngjarna segist hann ekki vilja taka svo djúpt í árinni. „Ef ég myndi svara spurningunni játandi þá myndum við hljóma eins og fórnarlömb. Við erum stór aðili á markaðnum og við þurfum einfaldlega að taka ábyrgð á stöðu mála í dag. Ábyrgðin felst m.a. í aukinni upplýsingagjöf og eitt af því sem við ætlum að gera næsta sumar er að freista þess að opna starfsemina fyrir almenningi sambærilegt því sem gert hefur verið í Hellisheiðavirkjun. Við höfum hingað til alltaf verið boðin og búin að taka á móti öllum þeim sem vilja koma til okkar en fólk hefur hins vegar þurft að taka upp símann og hringja í okkur. Í sumar ætlum við okkur að taka næsta skref og opna okkar starfsemi þannig að ef þú ert á leið í Borganes þá getur þú bara kíkt við hjá Elkem. Með þessu aukum við gagnsæi starfseminnar fyrir samfélagið í kringum okkur. Ég vil ekki segja að umræðan sé ósanngjörn, ég vil bara segja að þetta sé umræða sem er eðlileg og við eigum að bregðast við henni á upplýsandi og jákvæðan hátt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkin n Tölublöð.