Gylfi Arnbjörnsson, fráfarandi forseti ASÍ, var viðmælandi Viðskiptablaðsins í síðustu viku. Hluta af viðtalinu má lesa hér en viðtalið birtist í heild í Viðskiptablaðinu .

„Ég skil mjög vel áherslur Sólveigar Önnu og er sammála henni að það ber alltaf að hækka lægstu laun meira en önnur laun. Ég hef verið talsmaður þess og fingraför mín á kjaramál alveg frá því að ég kom inn sem hagfræðingur hafa verið undirtekt með þeim málflutningi. Ég held að sá stuðningur sem ég hef notið í röðum Starfsgreinasambandsins sé viðurkenning á því. Ég hef alltaf verið talsmaður þess að það eigi að ná sátt í svona hreyfingu að lyfta þeim tekjulægstu og hef beitt mér fyrir því. Á stundum hefur því frekar komið til orðaskipta milli mín og iðnaðarmanna.

Ég skil vel að í röðum Rafiðnaðarsambandsins eru efasemdir um mig. Það er ekki vegna þess að ég sé ekki duglegur að hækka lægstu laun heldur þvert á móti að ég sé of duglegur við það. Þeir taka mikið undir með þessum málflutningi Ragnars og losna undan kvöðinni að þurfa að leggja eitthvað til málanna um hækkun lægstu launa. Það gerist með því að vera ekki í samfloti á vettvangi Alþýðusambandsins. En það er þannig, eins og ég sagði áðan, að stundum þarftu bara að stíga í og taka á. Norrænu verkalýðsfélögin hafa á undanförnum tveimur árum þurft að beita verkföllum til að koma Norræna módelinu á. En það felur ekki í sér að þú viljir fara til baka til hlutanna eins og þeir voru fyrir 1990. Ég held að það sé engin eftirspurn eftir því.“

Maður fær stundum á tilfinninguna að svo sé.

„Mér finnst vera of mikið um að verið sé að túlka þá reiði sem er í okkar samfélagi sem reiði vegna kjarastefnunnar. Ég held að það sé ekki svo. Ég held að reiðin sé fyrst og fremst vegna þess að í skjóli þessarar kjarastefnu, sem hefur skilað miklum árangri, þá hefur kjararáð og nú í vaxandi mæli fyrirtæki, tekið til sín hækkanir sem eru órökstuddar, miklu hærri og ekki í neinu samræmi við það. Það er krafa almennings að fólk deili hérna kjörum. Bæði á vettvangi stjórnmálanna og í atvinnulífinu. Ég held að tillaga Sólvegar Önnu um að setja einhvers konar jöfnuðarvísitölu á sé mjög góð. Ef laun stjórnenda hækka umfram lægstu laun eigi að koma sjálfkrafa launahækkun til þeirra tekjulægstu. Þá geta þeir bara sjálfið metið hvað eigi að gera og það getur verið mjög sniðug leið í forsendum.“

Heldurðu að reynslan frá upphafi tíunda áratugarins sé eitthvað sem fólk er búið að gleyma?

„Ég held það. Þess vegna ákváðum við að mínu frumkvæði, eftir að ég gerði grein fyrir því í miðstjórn ASÍ, að það væri verið að mistúlka þessa reiði. Hún er vegna þessarar misskiptingar og að stjórnmálin eru að hafa af fólki þessar launahækkanir, en ekki vegna kjarastefnunnar eða SALEK. Við fórum í þessa herferð, sem var umdeilt og umdeilanlegt og pirraði marga.“ Herferðin sem Gylfi vísar til eru auglýsingar ASÍ á Facebook þar sem farið var yfir sögu stéttabaráttu fyrir og eftir árið 1990, þegar minni áhersla var lögð á hreinar prósentuhækkanir og meiri á vöxt kaupmáttar. Afleiðingar þessa voru meðal annars þær að Ragnar Þór lýsti yfir vantrausti á Gylfa.

„Það voru engu að síður 170.000 manns sem sáu þessi myndbönd meðan við vorum að hefja undirbúning að þinginu og hugsað sem innlegg í umræðu um kjarastefnu. Ég vildi rifja upp söguna. Af þeim viðbrögðum sem við fengum voru 85% af þeim jákvæð. 200 manns skrifuðu um 640 ummæli, margir sem skrifuðu oft. 150 skrifuðu eitthvað neikvætt en 4.000 „lækuðu“ myndböndin. Það segir kannski meira en margt um að þetta er mjög hávaðasamur hópur en hann er rosalega lítill. Hvort hann síðan fái að móta undirbúning kröfugerðarinnar og síðan framvindu kjaramála verður bara að koma í ljós.

Ég ætla ekki sem fráfarandi forseti að blanda mér í það. Ég ber svo mikla virðingu fyrir mínu baklandi að ég treysti að það móti skynsama kröfugerð. Ég hef lagt áherslu á að þau fari út og tali við fólk. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju á Akureyri, er búinn að halda 50 fundi á Eyjafjarðarsvæðinu og hitta 2.000 manns persónulega til að móta kröfugerð félagsins. Ég held að hann verði í allt annarri stöðu til að fylgja henni eftir þegar þar að kemur. Ég veit ekki hvernig þau hin ætla að bera sig að við þetta en ég hef hvatt til þess að fólk tali við félagsmenn. Haldið fundi í trúnaðarráði, farið út á vinnustaðina. Ræðið við fólk. Ef það kemur til átaka er það fólkið sem fer í átökin. Það verður að skilja út á hvað baráttan gengur og það verður að vilja hana.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .