Elkem Ísland framleiðir og selur kísilmálm sem sérhæfður er til íblöndunar í stáliðnaði og járnsteypu um allan heim en eftirspurn eftir slíkum vörum hefur margfaldast í kjölfar aukinnar vinnu að umhverfisvænum orkuskiptum. Að sögn Gests Péturssonar, forstjóra Elkem Ísland, hafa vörur félagsins spilað mikilvægt hlutverk í þeim árangri sem nú þegar hefur náðst á sviði orkuskipta. Í kjölfar undirritunar Par­ ísarsáttmálans jókst eftirspurn eftir sérvörum Elkem mikið en viðskiptavinir félagsins eru m.a. rafbílaframleiðendur og framleiðendur rafmótora sem er að finna í öllum helstu heimilistækjum á borð við þurrkara og þvottavélar, ísskápum, ryksugum og svo framvegis.

Í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir jól sagðir þú að síðasta ár hefði verið versta ár verksmiðjunnar í mörg ár og þar væri um að kenna ástandi á kísilmörkuðum, hvernig er staða Elkem í dag?

„Hún hefur batnað. Þetta var að mig minnir versta ár verksmiðjunnar í átta eða níu ár en heimsmarkaðsverðið hefur þó batnað á síðustu mánuðum og það virðist vera að komast á ákveðið jafnvægi.“

Kísilvæðing á Íslandi

Nú hefur United Silicon hafið starfsemi í Helguvík auk þess sem verið er að byggja kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík og Thorsil hyggst einnig byggja verksmiðju í Helguvík. Það er því ekki að undra að fólk hafi talað um ákveðna kísilvæðingu á Íslandi. Hver er skoðun þín á þessari þróun?

„Elkem hefur þá stefnu að vera kolefnisfrír málmframleiðandi og við leggjum verulega fjármuni og mannafla í að finna lausnir sem taka mið af því markmiði. Þá erum við auk þess með mjög skýr markmið hvað varðar rekstur og umhverfisfótspor. Það er einfaldlega mikilvægt að þessi iðnaður fylgi þeim línum sem okkur er upp á lagt, hvort sem það er í Parísarsáttmálanum, reglugerðum, kjarasamningum eða öðru slíku. Það verða allir að virða þær leikreglur sem eru til staðar í samfélaginu.“

Og eru öll fyrirtækin að gera það að þínu mati?

„Ég get auðvitað ekki talað fyrir fyrirtæki sem hafa ekki enn hafið starfsemi. Við höfum alltaf verið eina verksmiðjan á landinu og það er bara ekki rétt að ég tjái mig um rekstur annarra fyrirtækja. Í starfsleyfum fyrirtækja á Grundartanga eru ákvæði sem fela í sér að umhverfisvöktun á svæðinu þurfi að vera sameiginleg. Það hefur leitt til þess að vöktunin upp frá er umfangsmeiri og hagkvæmari en hjá mörgum sem við þekkjum til en með því að vera með sameiginlega vöktun er hægt að stýra heildaruppbyggingunni á þann hátt að það sé ekki verið að fara út fyrir ásættanleg mörk og það er t.d. ekki verið að reisa margar einingar af verksmiðjum af sömu tegund á svæðinu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.