Gildi lífeyrissjóður kynnti í vikunni nýja hluthafastefnu, sem tekur með skýrari hætti en fyrri stefnur sjóðsins á starfskjörum stjórnenda fyrirtækja sem sjóðurinn er hluthafi í. Stefnan tekur til þrettán fyrirtækja, þar af ellefu skráðra fyrirtækja, og segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, að sjóðurinn vilji eiga betri og skýrari samskipti við stjórnir þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í.

„Þetta er ekki að öllu leyti ný hluthafastefna, heldur uppfærsla og útfærsla á fyrri stefnu. Við settum okkur stefnu árið 2013, sem byggðist á því að við vorum þá orðnir stærri hluthafar í félögum en áður og töldum okkur þurfa að hafa meiri skoðun á rekstri þeirra. Síðan þá hefur svo orðið mikil umræða um stjórnarhætti fyrirtækja og vildum við taka þau sjónarmið inn í stefnuna,“ segir Árni.

Hvað varðar starfskjör stjórnenda segir Árni að markmiðið sé að fá ítarlegri upplýsingar um starfskjör og starfskjarastefnu. „Fyrirtæki hafa öll starfskjarastefnu, en þegar þú skoðar þær sérðu að þær eru flestar mjög svipaðar. Við viljum setja ákveðin viðmið um starfskjör og fá greinargóðar upplýsingar um þau.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .