Verðbólga mældist 2,8% í Bretlandi í mars síðastliðnum, samkvæmt nýbirtum upplýsingum bresku hagstofunnar. Verðbólgutölur sem þessar hafa ekki sést síðan í maí í fyrra, að sögn breska ríkisútvarpsins (BBC). Verðbólgutölurnar skýrast öðru fremur af verðlækkun á eldsneytis- og olíuverði sem vóg upp á móti hækkun verðs á bókum, stafrænum myndavélum og tryggingum.

Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, spáir því að verðbólga aukist eitthvað á árinu, fari yfir 3% fyrir áramót og verði yfir 2% verðbólgumarkmiðum næstu þrjú árin. Þá bætir BBC við að hagfræðingar búist almennt við að matvöruverð og raforkuverð muni þrýsta verðbólgunni upp.