Verðbólga á evrusvæðinu hjaðnaði þriðja mánuðinn í röð og mældist 8,5% í janúar samanborið við 9,2% í desember. Verðbólgan var undir væntingum hagfræðinga, sem áttu von á að hún yrði nær 9,0% samkvæmt könnun Reuters.

Hjöðnun verðbólgunnar má einkum rekja til þess að árshækkun orkuverðs lækkaði úr 25,5% í 17,2% á milli mánaða. Árshækkun þessa liðs vísitölunnar náði hámarki í 41,5% í október.

Ársverðbólga á evrusvæðinu náði hæstu hæðum í 10,6% í október síðastliðnum. Verðbólgan hafði þá aldrei verið meiri frá því að evran varð til árið 1999.

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, stóð óbreytt í 5,2%. Kjarnaverðbólgan er talin betri mælikvarði á undirliggjandi verðbólguþrýsting.

Seðlabanki Evrópu hækkaði vexti um hálfa prósentu í desember og standa þeir nú í 2,0%. Næsta vaxtaákvörðun bankans er á morgun. Væntingar eru um að bankinn hækki vexti úr 2,0% í 2,5%, að því er kemur fram í frétt Financial Times.