Aðlagaður hagnaður Iceland Seafood International (ISI) fyrir skatta (e. normalised PBT) var við núllið á fyrsta ársfjórðungi, samkvæmt drögum að uppgjöri. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

„Miklar verðhækkanir á öllum sviðum höfðu áhrif á afkomuna, sérstaklega á virðisaukandi sviðinu í Norður-Evrópu,“ segir í tilkynningunni. Félagið segir að rekstur þessa sviðs reiði sig meira á sölu til smásöluviðskiptavina heldur en til veitingageirans. „Það tekur lengri tíma að velta verðhækkunum til viðskiptavina innan smásölugeirans heldur en til viðskiptavina í veitingageiranum.“

Iceland Seafood segist hafa hækkað verð til viðskiptavina til að bregðast við hækkandi aðfangaverðum „en hraðinn á verðhækkunum hefur verið fordæmalaus. Verðhækkanir hafa auðsjáanlega byrjað að draga úr eftirspurn eftir fiskafurðum“. Félagið segir þó að merki séu um að verð séu að jafnast út á ákveðnum sviðum.

Félagið kveðst hafa einblínt á að bæta jafnvægið á sölu til viðskiptavina í smásölu annars vegar og til veitingageirans hins vegar frá því heimsfaraldurinn hófst. „Sem hluti af þeirri vegferð höfum við farið í skipulagðar fjárfestingar á síðustu tveimur árum til að auka vægi smásölu hjá samstæðunni í Bretlandi og Írlandi.“

Fram kemur að verðhækkanir á laxi hafi haft veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu í Írlandi þar sem þar sem núverandi aðstæður bætast við krefjandi öflun hvítfisks. Þá segir að reksturinn í Bretlandi hafi áfram verið rekinn með tapi og að verðhækkanir á öllum aðföngum hafi haft veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðuna.

„Enn voru örðugleikar við framleiðslu í Bretlandi en þar hefur ómíkron-afbrigði kórónuveirufaraldursins og raskanir á aðfangakeðjum haft áhrif.“

Þá kemur fram að Rawson tímabilið í Argentínu hafi verið undir væntingum á virðisaukandi sviði ISI í Suður-Evrópu en framleiðslan var 21% minni heldur en á fyrsta fjórðungi 2021. Minni afli en gert ráð fyrir sem og óstöðugt umhverfi á argentínska vinnumarkaðnum höfðu neikvæð áhrif á reksturinn.

ISI segir þó að sala og afkoma af starfsemi IS Iberica á Spáni hafi verið góð á fjórðungnum og að reksturinn njóti góðs af sterkri stöðu á markaðnum. Iceland Seafood segir einnig að mikil eftirspurn verið í öllum framleiðsluflokkum íslenskra fiskafurða.

Iceland Seafood International birtir uppgjör fyrsta ársfjórðungs þann 17. maí næstkomandi.