Verðbólga í Rússlandi var 11,4% á árinu 2014 samkvæmt bráðabirgðatölum rússnesku hagstofunnar Rosstat, að því er segir í frétt BBC.

Hrun Rúblunnar hefur mikið um verðbólguna að segja, en matvælaverð hefur hækkað um 15,4%. Verð á öðrum vörum hækkaði um 8,1% og verð á þjónustu hækkaði um 10,5%. Verðlag hækkaði um 2,6% í desember einum, en í mánuðinum hefur fall rúblunnar verið einkar hratt.

Verðbólga árið 2013 nam 6,5%, en verðbólga hefur ekki verið hærri í Rússlandi en í ár frá því að fjárkreppan hófst árið 2008.