Árshækkun vísitölu neysluverðs mældist 6,7% í mars sem er um 0,5 prósentustiga hækkun frá fyrri mánuði þegar verðbólgan mældist 6,2%. Vísitalan hækkaði um 0,94% á milli mánaða sem er örlítið undir spám greiningardeilda viðskiptabankanna. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 0,82% frá síðasta mánuði og hefur nú hækkað um 4,6% á ársgrunni.

Í tilkynningu Hagstofunnar segir að verð á fötum og skóm hafi hækkaði um 5,3% og hafði þannig 0,19% áhrif á vísitöluna. Hagfræðideild Landsbankans hafði bent á að útsölur á fötum og skóm hafi teygt sig inn í febrúarmánuð og áhrif útsöluloka koma því að hluta til fram í mars. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, sem einnig nefnist reiknuð húsaleiga, hækkaði um 2,0% á milli mánaða og hafði 0,35% áhrif á vísitöluna. Þá hækkaði verð á bensíni og olíum um 8,2% sem hafði 0,27% áhrif á vísitölu neysluverðs.

Greiningardeildir Íslandsbanka og Landsbankans höfðu spáð því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 1,0%-1,1% á milli mánaða og að verðbólgan færi upp í 6,8% í mars.

Næsta ákvörðun peningastefnunefndar er boðuð þann 4. maí næstkomandi. Í febrúar hækkaði nefndin stýrivexti um 0,75 prósentur og standa þeir nú í 2,75%. Stýrivextir hafa hækkað úr 0,75% í 2,75% frá maí 2021.