Lækkandi olíuverð réði mestu um að verðbólga á evrusvæðinu mælist nú aðeins 0,2%, að því er segir í frétt Reuters. Verðbólga er því nú langt frá 2,0% verðbólgumarkmiði evrópska seðlabankans þrátt fyrir umfangsmikla peningaprentun og skuldabréfakaup undanfarna mánuði, sem m.a. er ætla að ýta undir verðbólgu. Ef orku- og matarkostnaður er tekinn út fyrir sviga mælist svokölluð kjarnaverðbólga á svæðinu nú 0,9%.

Gert er ráð fyrir því að mæld verðbólga aukist eftir því sem líður á haustið þegar munur á olíuverði nú og í fyrra minnkar, en fari svo að verðbólga haldist enn verulega undir markmiðum seðlabankans er ekki ljóst til hvaða ráða hann getur gripið. Í síðustu viku leitaði Reuters til 46 sérfræðinga og spurði þá hvort seðlabankinn hefði einhver önnur vopn en skuldabréfakaup komi frekari veikleikar í ljós í hagkerfinu. Af þeim sögðu 34 sérfræðingar að engin slík vopn væru til.