Verðbólga mældist 0,5% á evrusvæðinu í maí. Það er 0,2 prósentustiga lækkun frá því í apríl, sem er meira en spár höfðu gert ráð fyrir, að því er fram kemur á vef Financial Times .

Miklar áhyggjur hafa verið uppi vegna mjög lágrar verðbólgu á evrusvæðinu. Þessi tíðindi ýta enn frekar undir að evrópski seðlabankinn grípi til sértækra aðgerða í peningamálastefnu sinni, til þess að koma í veg fyrir verðhjöðnun á svæðinu. Verðbólga nemur nú einungis um fjórðungi af verðbólgumarkmiði evrópska seðlabankans, sem er rétt undir 2%. Talið er að rekja megi lækkun verðbólgunnar að hluta til lækkandi matarverðs. Til samanburðar má geta þess að verðbólga á Íslandi mældist 2,4% í maí.

Samkvæmt upplýsingum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, hefur atvinnuleysi á evrusvæðinu lækkað lítillega, um 0,1 prósentustig frá fyrri mánuði og mælist því 11,7%. Mjög misjafnt er eftir aðildarríkjum hversu mikið atvinnuleysið er, en það mælist mest á Spáni og Grikklandi.