Verðbólga á evrusvæðinu mældist 4,9% í nóvember og hækkaði um 0,8% frá því í október þegar hún mældist 4,1%. Þetta er mesta ársverðbólga á evrusvæðinu síðan mælingar hófust árið 1997, að því er kemur fram í grein New York Times . Verðbólguhækkunin var yfir væntingum greiningaraðila en Viðskiptablaðið greindi í gær frá verðbólguspá Eurostat þar sem gert var ráð fyrir um 4,3 - 4,5% ársverðbólgu í mánuðinum.

Vísitala neysluverðs hækkaði mest í Belgíu og Litháen eða á bilinu 7-9%. Ársverðbólga í Þýskalandi, stærsta hagkerfi evrusvæðisins, mældist 6%. Auk þess er verðbólgan í Frakklandi komin upp í 3,4% og hefur ekki verið hærri í áratug.

Orkuverð á evrusvæðinu hefur hækkað um 27,4% síðustu 12 mánuði, samkvæmt umfjöllun New York Times, og er talin vera meginástæða hækkandi verðbólgu, auk flöskuhálsa í virðiskeðjum.

Katharina Koenz, hagfræðingur hjá Oxford háskóla, segir að Evrópski seðlabankinn geti lítið gert til skamms tíma til að bregðast við hærra orkuverði og flöskuhálsi í virðiskeðjum. Bankinn gerir ráð fyrir því að verðbólgan muni hjaðna á næstu árum með lækkandi orkuverði.