Verðbólga mældist 2,4% á evrusvæðinu í júlí og hefur engin breyting orðið þar á síðan í maí, samkvæmt upplýsingum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Á sama tíma mældist 2,5% verðbólga að meðaltali innan Evrópusambandsins. Til samanburðar mældist 4,6% verðbólga hér á landi í júlí.

Bloomberg-fréttaveitan rifjar upp að gert sé ráð fyrir því að verðbólga verði að meðaltali 2,3% á evrusvæðinu á þessu ári en fari jafnvel niður í 1,7% á næsta ári. Það er í samræmi við markmið evrópska seðlabankans.

Á sama tíma og verðbólga hreyfist ekkert dróst hagkerfi evrusvæðisins saman um 0,2% á öðrum ársfjórðungi eftir stöðnun í byrjun árs. Evrópski seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti nokkrum sinnum til að blása lífi í efnahagslífi myntsvæðisins í skugga skuldakreppu nokkurra aðildarríkja. Þær aðgerðir hafa skilað litlu.

Bloomberg hefur eftir Christian Melzer, hagfræðingi hjá Dekabank í Frankfurt í Þýskalandi, að aðstæður séu slíkar á evrusvæðinu nú um stundir að ekki megi búast við öðru en að evrópski seðlabankinn lækki stýrivexti á vaxtaákvörðunarfundi sínum í næsta mánuði um allt að 0,5 prósentur. Stýrivextir á evrusvæðinu standa nú í 0,75% og hafa aldrei verið lægri.