Verðbóla innan evrusvæðisins lækkaði í júlí og er nú sú lægsta í fimm ár. Verðbólga mældist 0,4% í samanburði við 0,5% í júní, samkvæmt heimildum Bloomberg. Þetta er lægsta verðbólga sem mælst hefur á svæðinu síðan í október árið 2009 og er lægri en spá Bloomberg um 0,5% verðbólgu.

Síðastliðna tíu mánuði hefur verðbólga verið lægri en 1% á svæðinu sem er undir markmiði evrópska seðlabankans og atvinnuleysi hefur verið mjög hátt undanfarna mánuði. Auk þess eru óeirðirnar í Úkraínu, Rússlandi og Mið-Austurlöndum að hafa áhrif á hagkerfi svæðisins.

Ekki er talið líklegt að verðbólga verði hærri en 1% það sem eftir er árs en vonir eru bundnar við efnahagsbata á næsta ári innan evrusvæðisins.