Verðbólga jókst óvænt í Bretlandi í síðasta mánuði og mælist hún nú 2,6%, samkvæmt upplýsingum bresku hagstofunnar. Verðhækkun á flugfargjöldum, hveiti og kornmeti og olíu auk útsöluloka í verslun skýra þróunina. Til samanburðar mældist 2,4% verðbólga í júní. Þetta er meiri verðbólguhækkun er búist var við. Meðalspá Bloomberg hljóðaði upp á 2,3%.

Í umfjöllun Bloomberg-fréttastofunnar er bent á að Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, gerir ráð fyrir því í verðbólguspá sem gefin var út í síðustu viku að draga muni úr verðbólgu eftir því sem líði á árið og verði hún komin undir 2% á næsta ári og niður í allt að 1,6% eftir tvö ár. Bloomberg bendir á að eigi það að ganga eftir þurfi bankinn að halda áfram að styrkja hagkkerfið, s.s. með  kaupum á skuldabréfum banka og fjármálafyrirtækja, með það fyrir augum að örva efnahagslífið.