Vísitala neysluverðs (VNV) mun hækka um 0,3% í apríl frá fyrri mánuði samkvæmt verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka. Í henni segir að ef spáin gangi eftir muni 12 mánaða verðbólga mælast 2,0% en var 2,1% í mars. Verðbólga verði því áfram nokkuð undir markmiði Seðlabankans og útlit sé fyrir að hún haldist undir markmiði á næstunni.

„Mikil óvissa er til staðar á mörkuðum og hefur krónan veikst að jafnaði um 13% gagnvart helstu erlendum gjaldmiðlum frá áramótum vegna áhrifa COVID-19 veirufaraldursins. Við spáum því að verðbólga muni taka að stíga um mitt ár og mælast 2,6% í ársbyrjun 2021. Verðbólga mun síðan taka að hjaðna á nýjan leik og verða að jafnaði rétt undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans á næsta ári,“ segir einnig í verðbólguspá Íslandsbanka, en Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur í greiningu hjá bankanum, er höfundur spárinnar.

Farið er um víðan völl i spánni og segir m.a. að enn sé líf á húsnæðismarkaði þrátt fyrir COVID-19. „Húsnæðisliður VNV hækkaði samtals um 1,2% í febrúar og mars. Við teljum ekkert lát þar á í þessum mánuði og gerum við ráð fyrir að liðurinn hækki í apríl um 0,54% (0,17% áhrif í VNV). Spálíkan okkar gerir ráð fyrir að reiknaða húsaleigan, sem endurspeglar að mestu þróun húsnæðisverðs, hækki um 0,8% (0,13% í VNV) og greidda húsaleigan hækki um 0,4% (0,02% í VNV).“

Eldsneyti lækki um 2,6% í apríl

Greining bankans reiknar þá með að eldsenytisverð muni halda áfram að lækka, enda hafi miklar lækkanir átt sér stað á heimsmarkaðsverði á hráolíu að undanförnu þótt veiking krónu vegi nokkuð þar á móti hvað Ísland varðar. Ætla megi að áhrifa þessa muni gæta í verði á eldsneyti hér á landi á næstu mánuðum, en í febrúar og mars hafi eldsneytisverð lækkað um samtals 4,6%. Því geri Greining ráð fyrir að í apríl lækki eldsneyti um 2,6% (-0,09% í VNV).