Í nýbirtri verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka er ráð gert fyrir að 12 mánaða taktur verðbólgu lækki úr 4,3% í 4,2% í ágúst. Samkvæmt spánni hækkar vísitala neysluverðs um 0,4% í mánuðinum.

Bent er á að verðbólgukúfurinn sé ekki bundinn við Ísland þessa dagana:

„Áhrif faraldursins á verðlag hafa á heildina litið verið til þess að ýta upp neysluverði þetta árið, bæði vegna ýmissa flöskuhálsa á framboðshliðinni og eins vegna vaxandi spurnar í mörgum landa heims þegar faraldurinn fór loks að láta undan síga. Þá hefur fasteignaverð víða um heim hækkað hratt síðustu misserin líkt og hér á landi, þótt sú hækkun komi í fæstum tilfellum fram í verðbólgumælingum".

Þá gerir Greining Íslandsbanka ráð fyrir að gengi krónu styrkist um um það bil 5% frá núverandi gildum fram til loka spátímans og að innflutt verðbólga verði þar með lítil að jafnaði. Á móti vegi að útlit sé fyrir talsverðan innlendan kostnaðarþrýsting. Áætlað er að laun muni að jafnaði hækka um 4,5% á ári næstu tvö árin.

Einnig er gert ráð fyrir allnokkurri raunhækkun húsnæðisverðs þótt hækkunin verði líklega talsvert hægari þegar fram í sækir en verið hefur undanfarið.

Mánaðarleg breyting VNV
Mánaðarleg breyting VNV