Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 8,5% í mars og hækkaði um 0,6 prósentustig frá fyrri mánuði. Verðbólgan hefur ekki mælst meiri í Bandaríkjunum í meira en fjóra áratugi eða frá því í desember 1981. Árshækkun vísitölu neysluverðs hefur nú mælst yfir 6% í sex mánuði í röð.

Í umfjöllun Wall Street Journal er bent á að árstíðaleiðrétt vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum hafi hækkað um 1,2% á milli mánaða, sem er mesta mánaðarhækkun frá árinu 2005. Hækkandi verð á bensíni vó meira en helming af hækkun vísitölunnar í síðasta mánuði.

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 6,5% í mars, samanborið við 6,4% í febrúar. Kjarnaverðbólgan hefur ekki mælst meiri frá því í ágúst 1982.

Vaxandi verðbólga hefur sett þrýsting á Seðlabanka Bandaríkjanna sem hækkaði í síðasta mánuði stýrivexti í fyrsta sinn frá árinu 2018.