Verðbólga í Bretlandi heldur áfram að lækka og var hún 0,5% í maímánuði en 0,8% í apríl. Hún hefur ekki verið lægri í fjögur ár, eða síðan í júní 2016. Frá þessu greinir BBC.

Verð eldsneytis lækkaði mest eða um 16,7% en auk eldsneytis lækkaði verð á fatnaði og skóm um 3,1% á meðan verð á matvörum hækkaði. Tekið er fram að erfitt hefur reynst að mæla verðbólgu vegna áhrifa kórónufaraldursins þar sem hluti af þeirri starfsemi sem vísitala neysluverðs byggir á hefur verið lokað.

Verðbólgumarkmið Englandsbanka er 2% en stýrivextir standa í 0,1%. Því er ljóst að bankinn hefur ekki mikið svigrúm til þess að lækka stýrivexti sína og gæti þurft að leita annarra leiða til að ná verðbólgumarkmiði sínu.

Á fyrsta ársfjórðungi 2020 hafa laun í Bretlandi, án tillits til bónusgreiðslna, hækkað um 1,7% sem er minnsti vöxtur síðan janúar 2015.