Verðbólga í Bretlandi mældist 1% í nóvember samkvæmt nýjum tölum bresku hagstofunnar. BBC News greinir frá þessu.

Verðbólgan mældist 1,3% í októbermánuði og þýðir lækkunin að hún hefur ekki verið minni í tólf ár. Ef hún fer niður fyrir 1% þarf Englandsbanki að útskýra ástæður lækkunarinnar skriflega fyrir stjórnvöldum.

Hagstofan sagði helstu ástæðuna fyrir lækkuninni vera lækkandi eldsneytisverð sem orsakast af lækkun undanfarna mánuði á heimsmarkaðsverði á olíu. Þannig lækkaði bensínverð í landinu um 5,9% í nóvember. Einnig lækkaði verð á matvörum um 1,7%.