Verðbólga í Bretlandi hjaðnaði úr 10,1% í 8,7% á milli mars og apríl, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Bretlands í morgun.

Verðbólgan mældist nokkuð yfir spám greiningaraðila sem áttu von á að hún myndi hjaðna niður í 8,2%. Englandsbanki hafði spáð fyrir um 8,4% ársverðbólgu, að því er kemur fram í grein Financial Times.

Matarverðbólgan mældist 19,1% í apríl samanborið við 19,2% í mars. Kjarnaverðbólga, sem undanskilur matvæla- og orkuverð, hækkaði úr 6,2% í 6,8% á milli mánaða.

Seðlabanki Bretlands hækkaði stýrivexti um 25 punkta upp í 4,5% á síðasta vaxtaákvörðunarfundi bankans í maí. Þetta var tólfta hækkunin í röð og hafa vextir ekki verið hærri í Bretlandi í 15 ár.

Markaðsaðilar telja að stýrivextir verði hækkaðir um 25 punkta upp í 4,75% á næsta vaxtaákvörðunarfundi bankans þann 22. júní.