Hagfræðingar telja að verðbólga á evrusvæðinu í nóvember muni ná methæðum. Áætlað er að verðbólgan muni í kjölfarið lækka jafnt og þétt og ná 2% markmiði árið 2023, samkvæmt grein Wall Street Journal.

Eurostat birtir á morgun verðbólgutölur fyrir nóvembermánuð, en sérfræðingar gera ráð fyrir um 4,3 - 4,5% verðbólgu, Verðbólga mældist 4,1% á evrusvæðinu í októbermánuði síðasliðnum, en verðbólga hafði einungis einu sinni mælst hærri en 4% síðan mælingar hófust árið 1997 á evrusvæðinu, en það var í júlímánuði árið 2008.

Greiningaraðilar áætla að aukin verðbólga á evrusvæðinu undanfarna mánuði stafi að miklu leyti af hærra orkuverði, eða um 2,2% af 4,3% spá nóvembermánaðar. Auk þess hafa aukin umsvif í efnahagsmálum og flöskuhálsar í virðiskeðjum haft veruleg áhrif á hækkandi verð á evrusvæðinu.