Tólf mánaða verðbólga mældist 0,6% í Japan í aprílmánuði og er það einhverjum eflaust fagnaðarefni. Ástæðan er sú að undanfarin tvö ár hefur verðhjöðnun átt sér stað í landinu. Þetta er því til marks um að hjól hagkerfisins séu farin að snúast hraðar en efnahagsleg ládeyða hefur ríkt í Japan um langt skeið og verðhjöðnun hefur verið viðvarandi vandamál í meira en áratug.

Samkvæmt BBC mældist kjarnaverðbólga, þar sem ekki er tekið tillit til matvælaverðs, 0,6% en þegar matvælaverð var tekið með mældist verðbólgan 0,3%. Það þykir þó ólíklegt að Japanir sjái fyrir endann á ládeyðunni enda var það hækkandi orkuverð, í kjölfar jarðskjálftans í mars, sem ýtti verðlaginu upp.