Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 1,05% á milli mánaða og fer verðbólga við það úr 6,3% í febrúar í 6,4% nú og hefur hún verið á svipuðu róli frá áramótum, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Þetta er í samræmi við hagspár greiningaraðila. 7

Verðbólgutölur voru á þessum slóðum um mitt ár 2010 þegar verðbólga var að hjaðna hratt í kjölfar gengishrunsins. Hæst fór verðbólgan í 18,6% í janúar árið 2009. Á sama tíma í fyrra mældist 2,3% verðbólga.

Í umfjöllun um verðbólgutölurnar á heimasíðu Hagstofunnar segir að vetrarútsölum fataverslana sé lokið og hækkaði verð á fötum og skóm um 6,3%. Verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 5,1% og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 14,1%.

Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,4% sem jafngildir 9,8% verðbólgu á ári.