Verðbólga hér á landi lækkaði úr 2,4% í 2,1% milli mánaða hér á landi, sé miðað við 12 mánaða breytingu á vísitölu neysluverðs. Án húsnæðis hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,8%.

Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í mars 2020 hækkar um 0,23% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er hækkar um 0,10% frá febrúar 2020. Í tilkynningu frá Hagstofunni segir að mælingin hafi verið unnin áður en verulega fór að bera á breyttum neysluvenjum vegna þess ástands sem uppi er í samfélaginu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Verð á fötum og skóm hækkaði um 4,5% (áhrif á vísitöluna 0,19%). Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,9% (0,14%). Verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði um 10,1% (-0,15%). Verð á bensíni og olíum lækkaði um 2,6% (-0,09%).

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í mars 2020, sem er 475,2 stig, gildir til verðtryggingar í maí 2020. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 9.383 stig fyrir maí 2020.