Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í janúar 2015 er 419,3 stig og lækkaði um 0,71% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 389,2 stig og lækkaði um 1,29% frá desember 2014. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands .

Helstu áhrifavaldar til lækkunar á vísitölunni voru vetrarútsölur, en þannig lækkaði verð á fötum og skóm um 15,2% (áhrif á vísitölu -0,72%) og verð á húsgögnum, heimilisbúnaði og fleiru lækkaði um 4,9% (-0,22%). Þá lækkaði verð á bensíni og olíu um 11,0% (-0,42).

Áhrif til hækkunar hafði hins vegar verð á mat og drykkjarvörum sem hækkaði um 2,6% (0,38%) og kostnaði vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 1,3% (0,19%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,8% og vísitala án húsnæðis hefur lækkað um 0,6%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs lækkað um 0,9% sem jafngildir 3,6% verðhjöðnun á ári, eða 6,5% verðhjöðnun fyrir vísitöluna án húsnæðis.