Verðbólga mælist nú 2,6% á evrusvæðinu. Þetta er örlítil hjöðnun á milli mánaða en hún var 2,7%, samkvæmt nýjustu tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Þetta er ekki jafn mikil hjöðnun og gert hafði verið ráð fyrir, að mati greinenda. Til samanburðar hefur verðbólga aukist jafnt og þétt hér og mælist hún nú 6,5%.

Fram kemur í umfjöllun AP-fréttastofunnar af málinu að þvert á væntingar hafi verðhækkun á olíuverði haldið verðbólgu uppi í mánuðinum. Búast megi við að svo verði áfram og hafi það neikvæð áhrif á evrusvæðinu..

Fréttastofan bendir á að verðbólgan sé enn yfir verðbólgumarkmiðum evrópska seðlabankans og setji það honum skorður, bankastjórnin geti sem dæmi ekki lækkað stýrivexti frekar þótt hún vildi á vaxtaákvörðunarfundi sínum í næstu viku.