Verðbólga mældist 3,1% í Kína í september síðastliðnum. Hún hefur ekki verið meiri síðan á fyrsta ársfjórðungi. Helstu áhrifaþættirnir sem aukið hafa verðbólguna síðan um síðustu áramót eru verðhækkanir á mat í kjölfar uppskerubrests af völdum veðurs.

Á sama tíma og verð hefur leitað upp á við hafa aðstæður í heimshagkerfinu valdið því að dregið hefur úr útflutningi frá Kína til annarra landa. Þetta hefur sniðið kínverska seðlabankanum þrengri stakk en áður í baráttu stjórnvalda við útþanið hagkerfi Kínverja og sé ólíklegt að bankinn hækki stýrivexti til að kæla það, að sögn Reuters-fréttastofunnar .

Fréttastofan segir matvælaverð hafa hækkað í fleiri Asíuríkjum en Kína sökum uppskerubrests. Sömu sögu sé nefnilega að segja á Indlandi.