Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,19% á milli mánaða í apríl og fór verðbólga við það úr 3,9% í 3,3%. Fram kemur í upplýsingum Hagstofunnar að vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,13% frá í mars. Þetta er nokkurn vegin í takt við væntingar. Greining Íslandsbanka spáði því reyndar að vísitala neysluverðs myndi lækka á milli mánaða og verðbólga fara við það í 3,0%. Greiningardeild Arion banka gerði ráð fyrir því að vísitalan myndi lækka og verðbólga fara við það niður í 3,2%.

Fram kemur í upplýsingunum að kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst um 1,8%. Verð á bensíni og olíum lækkaði um 4,0% og verð á nýjum bílum lækkaði um 2,2%.

Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,0% sem jafngildir 8,4% verðbólgu á ári (8,5% verðbólgu á ári fyrir vísitöluna án húsnæðis).