Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,4% í janúar samkvæmt nýbirgtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 3,4% en var 3,7% í desember sl.. Greining Íslandsbanka segir vetraútsölur og lækkun á bifreiðaverði vera helstu skýringar á lækkun vísitölunnar í mánuðinum.

Greining bankans segir jafnframt að veruleg breyting hafi verið á samsetningu á verðbólgunni undanfarið ár. Hlutur innfluttra vara hafi farið vaxandi í verðbólguþrýstingi en dregið hafi úr áhrifum húsnæðisverðs. Gengislækkun krónu á haustdögum 2018 skýri hækkandi verð innfluttra vara en greiningin tekur fram að verðhækkunin sé með hóflegra móti í samanburði við gengisbreytingar enn sem komið er.

Minnkandi þrýstingur húsnæðisliðarins á verðbólguna stafar af því að hægt hefur verulega á hækkunartakti íbúðaverðs miðað við sama tíma í fyrra þegar hann var tvöfalt hraðari en í dag. Á höfuðborgarsvæðinu hefur sérbýli hækkað í verði um 6,8% en í íbúðir í fjölbýli hækkað um 4,7%. Húsnæði á landsbyggðinni hækkaði um 9,2% á sama tíma og samtals hefur íbúðaverð á landinu því hækkað um 6% frá því í janúar 2018.

Telur bankinn að verðbólga verði yfir 3% næstu misseri en muni þó haldast undir 4% þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.