Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,28% á milli mánaða og fer verðbólga við það úr 4,3% í 4,2%, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Þetta er nokkuð frá spám greiningaraðila en IFS Greining og Greining Íslandsbanka spáðu að vísitalan myndi hækka um 0,4% og að verðbólga yrði óbreytt. Til samanburðar mældist 5,3% verðbólga fyrir ári.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að verð á dagvörum hækkaði um 0,6% á milli mánaða en kostnaður vegna eigin húsnæðis dróst saman um 0,4%. Þar af voru -0,105% áhrif af lækkun markaðsverðs og -0,05 af lækkun raunvaxta. Fljótt á litið virðist helsti munurinn á spám markaðsaðila og tölum Hagstofunnar felast í húsnæðisliðnum. Greining Íslandsbanka gerði ráð fyrir lítilli breytingu á liðnum á meðan IFS Greining spáði 0,5% hækkun hans.

Ef húsnæðisliðurinn er skilinn frá neysluverðsvísitölunni þá mælist verðbólga 4,7%.