Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,6% og vísitalan án húsnæðis um 4,7%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs lækkað um 0,3% sem jafngildir 1% verðhjöðnun á ári (1,9% verðhjöðnun á ári fyrir vísitöluna án húsnæðis). Á vef Hagstofunnar segir að Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag, í júlí 2012 sé 397,2 stig og lækkaði um 0,72% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 376,9 stig og lækkaði um 1,0% frá júní.

Sumarútsölur eru víða í gangi og lækkaði verð á fötum og skóm um 9,8% (vísitöluáhrif -0,54%). Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 15% (-0,29%) og verð á bensíni og díselolíu lækkaði um 2,2% (-0,12%). Verð á mat- og drykkjarvörum hækkaði um 1,3% (0,19%) og vó þar þyngst 5,2% hækkun á verði mjólkurafurða og eggja (0,12%).