Greining Íslandsbanka fjallar um verðbólguhorfur í grein sem birtist á vef bankans í dag undir fyrirsögninni Verð­bólga á all­hraðri nið­ur­leið með lækk­andi sól. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands hækkaði vísitalaneysluverðs um 0,09% í september og mælist verðbólga nú 3% og lækkaði um 20 punkta frá ágúst.

„Verðbólguhorfur eru ágætar næsta kastið, og er útlit fyrir að verðbólga verði komin niður í 2,5% markmið Seðlabankans fyrir áramót. Við spáum 0,2% hækkun VNV í október, 0,1% hækkun í nóvember og 0,5% hækkun í desember. Samkvæmt því mun 12 mánaða verðbólga mælast 2,3% í árslok. Eins og fram kom í nýbirtri þjóðhagsspá okkar gerum við í kjölfarið ráð fyrir því að verðbólgan verði að jafnaði 2,6% árið 2020 og 2,8% árið 2021. Samkvæmt því verður verðbólgumarkmið Seðlabankans í höfn í lok þessa árs og áfram innan seilingar út spátímann,“ segir Greining Íslandsbanka sem spáir því að peningastefnunefnd muni halda vöxtum óbreyttum á fundi sínum í næstu viku.

„Verðbólga hefur því hjaðnað um 0,7 prósentur frá áramótum, en í desember í fyrra mældist verðbólgan 3,7%. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,10% í september og miðað við þá vísitölu mælist 2,9% verðbólga undanfarna 12 mánuði.

„Mæling septembermánaðar er í samræmi við birtar spár.  Við spáðum 0,2% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,1% – 0,2% hækkun milli mánaða. Helsti munur á spá okkar og útkomunni felst í meiri lækkun flugfargjalda til útlanda, og óvæntri lækkun á greiddri húsaleigu, bifreiðaverði og matvælaverði. Á móti hækkaði fataverð og reiknuð húsaleiga meira en við væntum,“ segir í umfjöllun Íslandsbanka.

Lok sumarútsala setja ávallt mark sitt á septembermælingu VNV. Að þessu sinni hækkaði verð á fatnaði um 4,2% (0,18% í VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður hækkaði í verði um 2,3% (0,12% í VNV). Þá hækkaði liðurinn tómstundir og menning um 0,6% (0,06% í VNV), bæði vegna útsöluloka á sjónvörpum, tölvum og slíkum búnaði en einnig vegna árvissrar hausthækkunar á gjöldum fyrir íþróttaiðkun og tómstundastarf.

Á móti lækkuðu ýmsir undirliðir vísitölunnar allnokkuð. Má þar nefna að flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 8,6% (-0,13% í VNV) og var það öllu meiri haustlækkun en við áttum von á. Þá lækkuðu bifreiðar í verði um 1,1% (-0,06% í VNV), eldsneytisverð lækkaði um 0,9% (-0,03% í VNV), lyfjaverð lækkaði um 1,8% (-0,03% í VNV) og matvælaverð um 0,2% (-0,02% í VNV). Í öllum þessum liðum vegur innflutningsverðlag talsvert þungt. Einnig lækkaði greidd húsaleiga óvænt um 0,6%.“