Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverð hækkað um 2,8% en vísitala án húsnæðis hefur hækkað um 2,6%, að því er kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Vísitala neysluverðs í október 2019, er 472,2 stig og hækkaði um 0,36% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 402,9 stig og hækkar um 0,22% frá september 2019.

Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkar um 1,0% (áhrif á vísitöluna 0,17%).

„Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í október 2019, sem er 472,2 stig, gildir til verðtryggingar í desember 2019. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 9.324 stig fyrir desember 2019,“ segir í frétt á vef Hagstofunnar.

Í lok fréttar Hagstofunnar er greint frá því að vogir fyrir meðalvexti sem notaðir eru við útreikning á reiknaðri leigu fyrir búsetu í eigin húsnæði hafi verið endurskoðaðar. Þetta sé í samræmi við tilkynningu í frétt sem fylgdi útgáfu vísitölu neysluverðs 27. september 2019. Með endurskoðuninni séu vogir fyrir vaxtaflokka lánastofnana og eigið fjárframlag uppfærðar. Endurskoðun voga hafi sem slík ekki áhrif til verðbreytingar á vísitölu neysluverðs, heldur sé vogum haldið föstum í verðsamanburði milli mánaða.