Verðbólga mælist 3,3% og er það óbreytt staða á milli mánaða, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar . Verðbólga hefur ekki verið lægri í tvö ár. Þetta er í samræmi við væntingar markaðsaðila. Vísitalan neysluverðs lækkaði um 0,05% á milli mánaða og er það nokkurn vegin í samræmi við spár. Greiningardeild Arion banka spáði því að vísitalan héldist óbreytt á milli mánaða í maí en Greining Íslandsbanka að hún myndi hækkaði um 0,1%. IFS Greining spáði því að verðlag myndi lækka um 0,1% á milli mánaða og óbreyttri verðbólgu.

Fram kemur í verðbólgutölum Hagstofunnar að vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,18% frá í apríl.

Flugfarfargjöld til útlanda lækkuðu um 6,4% síðan í apríl. Á móti segir Hagstofan að þátttaka Sjúkratrygginga Íslands í tannlæknakostnaði barna hafi leitt til 3,1% lækkunar á tannlæknalið vísitölu neysluverðs. Ekki er hins vegar ljóst hver heildaráhrif af kerfisbreytingu verða með nýju greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakaupa sem var tekið í notkun 4. maí síðastliðinn.