Verðbólga í Bretlandi mældist 3,2% í ágúst en hún hefur ekki verið meiri frá árinu 2012. Verðbólgan hækkaði um 1,2 prósentustig frá júlí sem er mesta mánaðahækkun frá upphafi mælinga, en núverandi vísitala neysluverðs bresku hagstofunnar nær aftur til ársins 1997.

Verðbólgumarkmið Breska seðlabankans nemur 2% og því er verðbólgan meira en einni prósentu yfir markmiði. Fyrir vikið neyðist Andrew Bailey, seðlabankastjóri Bretlands, að skrifa bréf til Rishi Sunak, fjármálaráðherra og útskýra af hverju verðlag hækkaði svona mikið og hvernig seðlabankinn hyggst bregðast við.

Hluti af ástæðunni fyrir stökkinu í verðbólgu skýrist af stuðningsaðgerðum stjórnvalda síðasta sumar vegna Covid, líkt og verkefnið „Eat Out to Help Out“, þar sem breska ríkið niðurgreiddi máltíðir á veitingahúsum. Slíkar aðgerðir lækkuðu verð tímabundið og skekkja því myndina að vissu leyti.

Hins vegar hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,7% á síðustu sex mánuðum sem bendir til þess að stór hluti verðbólgunnar skýrist af verðhækkunum á vörum og þjónustu frá því að bresk stjórnvöld byrjuðu að aflétta samkomutakmörkunum.

Breski seðlabankinn hafði þegar gert ráð fyrir að verðbólgan færi upp í 4% síðar í ár en hækkunin í ágúst kann þó að hafa komið honum á óvart, að því er kemur fram í frétt Financial Times .