Niðurfelling á verðtryggðum skuldum heimilanna virðist vera töluvert hóflegri en margir bjuggust við í kjölfar þingkosninga, að mati Greiningar Íslandsbanka. Deildin segir í Morgunkorni sínu í dag skuldaniðurfærsluna jafngilda um 4,3% lækkun á skuldum heimilanna eða um sem nemur 4,6% af vergri landsframleiðslu. Til viðbótar við það hafa skuldirnar lækkað talsvert á síðastliðnum fjórum árum, eða úr ríflega 130% af vergri landsfrámleiðslu árið 2009 í 108% nú. Í krónum talið hefur niðurfærslan þegar numið 244 milljörðum króna, samkvæmt tölum Seðlabankans. Greining Íslandsbanka segir þyngst vega endurútreikningur gengistryggðra lána. Fyrri aðgerðir stjórnvalda leiddu til 56 milljarða króna lækkunar á skuldum.

Greining Íslandsbanka telur að skuldaniðurfærslan nú muni væntanlega auka hagvöxt á komandi árum vegna þeirra jákvæðu áhrifa sem þær geta haft á hreina eignastöðu heimilanna og ráðstöfunartekjur og þar með einkaneyslu og fjárfestingu heimilanna. Á sama tíma er líka líklegt að þær hafi hliðarverkanir í för með sér á borð við þráláta verðbólgu og hærri vexti. Þá gæti aðgerðin veikt krónuna vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem þær hafa á viðskiptajöfnuð.