Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,7% frá fyrri mánuði og verðbólga í maí verði því 7,5%, samanborið við 7,2% í apríl. Innflutt verðbólga og hækkun íbúðaverðs vega þyngst til hækkunar en á móti kemur lækkun flugfargjalda.

„Útlit er fyrir að verðbólga muni aukast enn frekar á næstu mánuðum og samkvæmt spá okkar mun verðbólga ná toppi í lok sumars í 8,4%.“

Bankinn gerir ráð fyrir áframhaldandi hækkunum á íbúðaverði og innfluttri verðbólgu en hægjast muni á hækkunum íbúðaverðs þegar líða tekur á árið vegna aukins framboðs af nýjum íbúðum og hærri vaxta. Ekki muni draga úr verðbólgu fyrr en líða tekur á næsta ár, segir í spánni.

Húsaleiga vegur þungt

Húsnæðisliðnum í heild er spáð 1,5% hækkun þar sem mestu munar um reiknaða húsaleigu. Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs að mestu, muni hækka um 2,2% á milli mánaða. Ef spáin gengur eftir munu áhrif af hækkun húsnæðis á hækkun vísitölu neysluverðs vera 0,45% og þar af reiknuð húsaleiga 0,42%.

Á eftir húsnæði hækka matar- og drykkjavörur mest, og spáir bankinn 0,7% hækkun á milli mánaða. Það sem af er ári hafa matvörur hækkað um 3,8% í verði og spáir bankinn áframhaldandi hækkunum á næstu mánuðum.  Áhrif af hækkun á matvörum á vísitöluna yrði 0,11%.

Eldsneyti hefur hækkað um tæp 13% frá áramótum og spáir bankinn um 1,6% hækkun á milli mánaða. Áhrif eldsneytis á hækkun vísitölunnar er 0,06%.

Á móti kemur lækkun á flugfargjöldum um 6,6% á milli mánaða sem hefur 0,14% áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs.

Verðbólguhorfur

Ársverðbólga í Bandaríkjunum mælist nú 8,3% og á Evrusvæðinu 7,4%. Óvíst er hvenær tekst að leysa framboðsvandann erlendis, og þangað til er ljóst að verðbólga muni halda áfram að aukast hér á landi.

Bankinn gerir ráð fyrir talsverðum launahækkunum eftir næstu kjarasamninga en hækkanir fari þó ekki fram úr öllu hófi.

Bankinn spáir 7,6% verðbólgu að meðaltali árið 2022, 5,9% árið 2023 og árið 2024 verði hún að jafnaði 3,9%.