Forsvarsmenn seðlabanka Ástralíu og Suður- Kóreu hafa varað við því að verbólga sé að aukast hraðar en spár gerðu ráð fyrir. Seðlabankastjóri Ástralíu sagði það myndu taka mörg ár fyrir verðbólguna að komast aftur í eðlilegt horf.

Philip Lowe, seðlabankastjóri Ástralíu, sagði á þriðjudag að verðbólgan þar í landi yrði komin upp í 7% í lok árs en spá bankans síðan í maí gerði ráð fyrir að verðbólga næði hámarki í kringum 6%. Lowe tók einnig fram að það væru mörg ár þar til verðbólgan yrði aftur komin niður í markmið bankans, 2-3%, segir í frétt Wall Street Journal.

Seðlabankastjóri Suður-Kóreu sagði verðbólgu þar í landi líklega til að aukast meira en spár gerðu ráð fyrir og að síðar á árinu gæti hún farið yfir 4,7% sem er meira en í fjármálakreppunni árið 2008. Þá býst suður-kóreski seðlabankinn við því að verðbólga fari yfir 5% í einhvern tíma á meðan framboð af hráolíu og korni er takmarkað vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Þessar viðvaranir undirstrika hversu erfið verðbólgan ætlar að reynast seðlabönkum um allan heim, jafnvel í löndum þar sem verðbólga hefur sögulega verið lág. Fram að heimsfaraldri bjó ástralía Ástralía, hvers hagkerfi byggir að miklu leyti á hrávöruútflutningi, við stöðugt verðlag og samfelldan hagvöxt í áratugi.